Notkunarreglur Gmail

Notkunarreglur Gmail gegna mikilvægu hlutverki í að viðhalda jákvæðri upplifun hjá öllum notendum Gmail. Gættu þess að líta hér inn af og til því að reglurnar kunna að breytast. Frekari upplýsingar er einnig að finna í þjónustuskilmálum Google.

Ruslefni og fjöldapóstur

Ekki má nota Gmail til að dreifa ruslefni eða óæskilegum auglýsingapósti.

Einkum er óheimilt að nota Gmail til að senda tölvuskeyti sem brjóta í bága við CAN-SPAM-lögin eða önnur lög um varnir gegn ruslpósti, til að senda í óleyfi tölvuskeyti í gegnum opna netþjóna þriðja aðila eða til að dreifa netföngum einstaklinga án samþykkis þeirra.

Eins er óheimilt að nota sjálfsstýringu í viðmóti Gmail til að senda, eyða eða sía tölvuskeyti á hátt sem blekkir eða villir um fyrir notendum.

Hafðu í huga að viðtakendur kunna að leggja aðra merkingu í orðin „óæskilegur“ eða „óumbeðinn“ en þú. Sýndu góða dómgreind þegar sendur er tölvupóstur til margra viðtakenda í einu, jafnvel þótt viðtakendur hafi áður valið sjálfir að fá tölvuskeyti frá þér. Þegar notendur Gmail merkja tölvupóst sem ruslefni eykur það líkur á því að efni frá þér verði einnig síðar merkt sem ruslefni af kerfinu sem við notum til að sporna gegn misnotkun.

Stofnun og notkun margra Gmail reikninga

Ekki má stofna eða nota marga reikninga til að brjóta gegn reglum Gmail, sneiða hjá takmörkunum Gmail reikninga, komast hjá síum eða grafa með öðrum hætti undan þeim takmörkunum sem gilda um reikninginn þinn. (Hafi annar notandi til að mynda sett þig á bannlista eða Gmail reikningurinn þinn verið gerður óvirkur vegna misnotkunar máttu ekki búa til nýjan reikning í staðinn til að halda þar uppteknum hætti.)

Eins er ekki leyfilegt að búa til Gmail reikninga með sjálfvirkum hætti eða kaupa, selja, skipta eða endurselja Gmail reikninga til annarra.

Spilliforrit

Ekki má nota Gmail til að dreifa vírusum, spilliforritum, ormum, trjójuhestum, spilltum skrám eða öðrum skaðlegum eða blekkjandi hlutum. Jafnframt er óheimilt að dreifa efni sem skaðar eða truflar starfsemi netkerfa, netþjóna eða annars búnaðar í eigu Google eða annarra.

Svik, vefveiðar og aðrar blekkingar

Ekki má fara inn á aðgang annars notanda Gmail nema fyrir liggi óvefengjanlegt samþykki viðkomandi. Ekki má nota Gmail til að gabba, afvegaleiða eða blekkja aðra notendur til að deila upplýsingum á fölskum forsendum.

Ekki má blekkja notendur til að láta af hendi upplýsingar á borð við innskráningarupplýsingar, aðgangsorð, fjárhagslegar upplýsingar eða kennitölur eða nota Gmail í því skyni að svíkja aðra.

Öryggi barna

Myndefni sem sýnir kynferðislega misnotkun á börnum er stranglega bannað á Google. Ef við uppgötvum slíkt efni munum við tilkynna það til miðstöðvar týndra og misnotaðra barna, líkt og lög kveða á um. Eins kunnum við að grípa til eigin refsiaðgerða, m.a. með því að loka Google reikningum þeirra sem hlut eiga að máli.

Höfundarréttur

Virtu höfundarréttarlög. Ekki brjóta gegn hugverkaréttindum annarra, s.s. réttindum varðandi einkaleyfi, vörumerki, viðskiptaleyndarmál og annan eignarrétt. Eins er óheimilt að hvetja til eða ginna aðra í að brjóta á hugverkaréttindum. Þú getur tilkynnt brot á höfundarrétti til Google með því að nota þetta eyðublað.

Áreitni

Ekki má nota Gmail til að áreita, ógna eða hóta öðrum. Hver sá sem staðinn er að því að nota Gmail í slíkum tilgangi á á hættu að reikningi hans verði lokað.

Ólöglegt athæfi

Fylgja skal lögum. Ekki má nota Gmail til að stuðla að, skipuleggja eða taka þátt í ólöglegu athæfi.